top of page
  • Writer's pictureIndíana Rós

Skotheld ráð kynfræðings að góðum prófíl á þínu uppáhalds stefnumótaforriti

Þessi pistill birtist fyrst hér á vísir.is
Ókei, í draumaheimi erum við ekki að „dæma bókina út frá kápunni” og viljum öll þykjast gera betur en það, en ég meina, við skulum öll vera hreinskilin. Á stefnumótaforritum erum við einmitt öll að gera nákvæmlega það og þá er eins gott að kápan okkar sé eins góð og hún getur verið!


Settu nú upplýsingar um þig og segðu satt

Ertu 47 ára en stilltir prófílinn þinn á 35? Af hverju? Hvern ertu að reyna plata? Við búum á Íslandi og það þarf engan rannsóknarlögreglumann til að fara inn á Íslendingabók og sjá að  enginn með þessu nafni sé fæddur þetta ár. Heiðarleiki er sexy og byrjaðu á því.


Settu inn menntunina þína, starf eða áhugamál. Það getur verið mjög erfitt að byrja spjall svo gefðu fólki eitthvað til að grípa í til að tengja við eða spyrja þig út í.


Áfram með heiðarleikann

Segðu frá hverju, eða hvaða eiginleikum þú ert að leita að,frekar en hvað þú vilt ekki. „Ég vil heiðarleika og góð samskipti,’’ eða: „Er að leita að framtíðarsambandi,’’ hljómar mun betur en: „Ef þú ert lygari eða léleg í samskiptum ekki matcha mig,’’ eða: „Ég er ekki að leita neinu sem er ekki til framtíðar.’ Hitt opnar á frekari möguleika á spjalli og byrjar með jákvæðni að leiðarljósi, fá  eru spennt að senda einhverjum skilaboð ef neikvæðni er það fyrsta sem sést.


Í flestum þessum forritum eru oft alls kyns valmöguleikar eða upplýsingar sem þú getur gefið upp. Langar þig í börn eða ekki, hver er kynhneigð þín, hvers konar sambandi ertu að leita að. Þú þarft ekki að svara þessu öllu en gott að fylla inn til að búa til ákveðinn fílter til að þú finnir  fólk sem er í sömu pælingum og þú.


Myndaval

Ókei, myndirnar. 

Ef eina myndin af þér var tekin á samloku símanum sem þú áttir árið 2005 er tími til að uppfæra. Langflest eigum við, eða þekkjum einhvern sem á nýlegan snjallsíma með nokkuð góðri myndavél. Passaðu að birtan sé góð og horfðu í átt að myndavélinni. Það skemmir svo ekki að brosa!


Ef hin myndin af þér er þegar þú stóðst upp á fjalli og ákvaðst að zoom-a inn á myndina svo hún er svo pixluð, áttar enginn sig á hvort þetta sé raunveruleg mynd eða eitthvað Paint-listaverk þá skaltu finna nýja mynd. 


Svo er alltaf klassískt að hafa myndir af sér með hóp eða að gera eitthvað sem þér finnst skemmtilegt að gera og lýsir þér og þínum áhugamálum. Finnst þér gaman að klífa fjöll? Settu þá mynd af þér í fjallgöngu. Fátt betra en að vera í góðra vina hópi og spjalla? Já, settu þá mynd af þér með hópnum. Elskarðu að setja saman módel af flugvélum? Já, fáðu einhvern til að taka mynd af þér við þá iðju, eða notaðu gamla góða timer-inn.

Það er þó óþarfi að setja mynd af bara hundinum sínum, bílnum sínum eða verkfæratösku. Við erum á þessu forriti til að skoða fólk, ekki ýmsar aðrar eignir fólks.


Hvernig er kynheilbrigðið þitt?

Kynfræðingurinn nefnir þetta að sjálfsögðu, og ég er ekki að segja að þú þurfir að setja þetta inn á prófílinn þinn, en þú skalt að sjálfsögðu huga að þessu. 

Ef þú stefnir á að stunda kynlíf með fólki þá er gott að pæla í eftirfarandi hlutum:

  • Hvað er langt síðan ég fór í kynsjúkdómapróf? Er ég tilbúin/n/ð að spyrja manneskju sem er möguleiki á kynlífi með, hvort hún sé búin að fara nýlega í test? Og hver var niðurstaðan?

  • Vil ég nota kynsjúkdóma og getnaðarvarnir? Ef já, á ég til smokka? Hvernig get ég komið því skýrt á framfæri?

  • Hvaða sleipiefni finnst mér gott að nota? 

  • Hvað finnst mér gott? Hvernig get ég sagt það? 

  • Hvernig veit ég hvað öðrum finnst gott?

  • Hvernig set ég mörk og hvernig fæ ég samþykki?

  • Hvernig fólki verð ég skotin/n/ð í? Hvernig sambönd langar mig í? Er opið samband eitthvað sem mig langar að skoða?

  •  Hvernig kynlíf langar mig í? Hef ég pælt almennilega í þessu eða er ég bara fylgja því handriti sem ég hef alltaf fylgt?


Til að fræðast betur um þetta handrit og hvernig samtöl má eiga tengd kynlífi mæli ég með að leggja á hlustir við þennan þátt!

2 views0 comments

Comments


bottom of page